Starfsemin

Strax fyrsta sumarið var mikið að gerast hjá Rimmugýgjarfélögum, víkingahátíð í Trelleborg í Svíþjóð, fyrsta hátíðin sem hópurinn tók þátt í og fékk eldskírn á bardagavelli, víkingahátíð í Hafnarfirði og loks í Plymouth á Englandi. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og Rimmugýgur hefur öðlast virðingu í víkingaheiminum sem hópur frábærra og reyndra bardagamanna sem einatt standa einir eftir „á lífi“ í lok fólkorrusta. Strax í upphafi var nefnilega tekin sú ákvörðun að verða bestir, þess vegna hafa Rimmugýgjarfélagar alla tíð æft tvöfalt meira en aðrir. Hefur það borið ríkulegan ávöxt. Í seinni tíð hafa nokkrir hópar fylgt fordæmi okkar og fjölgað æfingum þannig að við þurfum sífellt að vera að bæta okkur til að standa okkur í harðri samkeppni.
Rimmugýgur hefur tekið þátt í öllum víkingahátíðum sem haldnar hafa verið hér í Hafnarfirði að þeirri fyrstu undanskilinni og nokkrum hátíðum hér innanlands, má þar nefna á Seyðisfirði, Eiríksstöðum, Þingeyri, Grettishátíð á Laugabökkum í Miðfirði, Írskum dögum á Akranesi og Ormsteiti á Egilsstöðum ásamt fjölda smærri viðburða.
Af erlendum viðburðum er af mörgu að taka, Rimmugýgur, eða einstakir félagar hafa í samvinnu við Fjörukrána verið í Færeyjum og Grænlandi, Ítalíu og Þýskalandi. Hópurinn hefur síðan 1999 reynt að komast á hverju ári á stóra hátíð í Moesgaard í Danmörku þar sem sérstakir eiginleikar hans fá að njóta sín til fulls. Þar er stillt upp í stóra orrustu þar sem yfir 450 bardagamenn reyna með sér í tveimur herjum. Að auki mætti nefna ferðir Rimmugýgjar til Noregs, Svíþjóðar, Waco í Texas, Hastings á Englandi, L’Anse aux Meadows á Nýfundnalandi, Íslendingadaginn í Gimli í Kanada og Wolin í Póllandi svo stiklað sé á stóru