Saga Rimmugýgjar

Saga Rimmugýgjar

Saga Rimmugýgjar tengist órjúfanlegum böndum Fjörukránni og víkingahátíðum sem hafa verið haldnar á hennar vegum og Hafnarfjarðarbæjar. Fyrsta víkingahátíðin var haldin sumarið 1995, með henni vaknaði áhugi fyrir stofnun víkingahóps að erlendri fyrirmynd. Einn víkinganna Phil Burthem varð eftir í nokkra daga og kenndi nokkrum starfsmönnum Fjörukráarinnar undirstöðuatriði í víkingabardaganum og leiðbeindi um vopn og fatnað. Þegar hann hélt af landi brott hættu menn æfingum, en áhuginn var enn til staðar hjá sumum þeirra sem höfðu tekið þátt í æfingum með Phil. Það var loks haustið 1996 sem Jóhannes í Fjörukránni boðaði nokkra áhugamenn um víkingamenningu til fundar við sig til að ræða stofnun víkingasamtaka og sett var saman nefnd sem átti að vinna að málinu. Það er skemmst frá því að segja að nefndin fundaði aldrei en hins vegar ákváðu nokkrir fundarmanna að hittast og æfa sig í vopnaburði undir leiðsögn Thomasar Tandrup, dansks víkings sem þá var starfandi í Fjörukránni. Æft var á efri hæð Fjörugarðsins, í Hofinu af miklu kappi. Þegar Thomas hélt af landi brott í byrjun desember var hópurinn það vel á veg kominn að hann hélt æfingum og undirbúningi áfram af fullum krafti. Hófu menn að viða að sér búningum og vopnum, sett voru lög, voru þau að stofni til fengin frá danska víkingahópnum Ask, staðfærð fyrir íslenskar aðstæður og fyrsta stjórn Rimmugýgjar var kosin. Í henni voru Hafsteinn Kúld Pétursson, formaður eða jarl eins og formaður er titlaður, Snorri Hrafnkelsson ritari og Úlfar Daníelsson gjaldkeri, titlaðir hersar.

Eftir áramót 1996-97 kom svo Phil Burthem aftur og þjálfaði bardagamennina í nokkra daga, hann var síðan aftur á ferðinni í júníbyrjun og varð vitni að formlegri stofnun Rimmugýgjar, félags áhugamanna um menningu og bardagalist víkinga við Öxarárfoss á Þingvöllum 7. júní 1997. Jörmundur allsherjargoði ásatrúarmanna stýrði athöfn þar sem Rimmugýgjarfélagar sórust í bræðralag og tók hver tryggðir við annan, en hver veitti á móti tryggðir og megintryggðir þær er æ skulu haldast, meðan mold og menn lifa.