Bardaga- og æfingareglur

Aðal bardagaþjálfari Rimmugýgjar er einhver sem hefur margra ára reynslu í notkun allra vopna sem notuð eru í víkingabardaga og þekkir hvernig þau eru notuð. Einnig er hann vel að sér um stærri bardaga og getur miðlað upplýsingum um taktík og hvernig smærri einingum er beitt. Aðal bardagaþjálfari Rimmugýgjar er núna Ísleifur Gissurarson en honum til aðstoðar eru Guðni Garðarsson og Ingólfur Már Grímsson. Rimmugýgur berst samkvæmt vestrænum bardagareglum þar sem högg eru á fullum hraða en eru stöðvuð áður en þau „lenda“ þannig að snertingin verði sem léttust til að valda ekki meiðslum. Til eru aðrar reglur um bardaga t.d. sú austræna, húskarl, hema o.s. frv. en þær eru ekki iðkaðar á bardagaæfingum Rimmugýgjar. Gullna reglan á æfingum er að bardagaþjálfarinn ræður. Orð hans eru lög og ákvarðanir endanlegar. Ef þú ert ekki sammála verður þú að fara að fyrimælum en ræða síðan við hann í hléi eða á öðrum tíma.